Verkefnin

Vistheimt með skólum

11.8.2020

Verkefnið Vistheimt með skólum eykur umhverfisvitund til framtíðar með samvinnu Landverndar og grunnskóla landsins.

 

Áskorunin

Gróður- og jarðvegseyðing, tap á líffræðilegri fjölbreytni og loftslagshamfarir, eru flókin umhverfisvandamál sem spila öll saman. Þau auka áhrif hvers annars og eru meðal stærstu áskorana sem mannkynið og jörðin stendur frammi fyrir. Lykilatriði í öllum umhverfismálum eru breytt viðhorf og umgengni fólks við náttúruna. Slík breyting verður ekki nema með fræðslu og menntun. Áskorun Landverndar fólst í að útbúa menntaverkefni fyrir grunn- og framhaldsskóla sem bæði eykur þekkingu nemenda á þessum flóknum umhverfismálum og getu kennara til að leiðbeina nemendum að takast á við þessi mál.

Lítil þekking á vistheimt var í skólum landsins áður en verkefnið hófst en fyrstu þátttökuskólarnir þrír, Grunnskólinn Hellu, Hvolsskóli og Þjórsárskóli, höfðu allir einhverja reynslu af landgræðslu. Verkefnið Vistheimt með skólum er rekið af Landvernd í samstarfi við m.a. Landgræðsluna og Hekluskóga og í dag eru þátttökuskólarnir níu talsins, allt grænfánaskólar.

Hvað var gert?

Verkefnið samtvinnar fræðslu, endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og beitingu vísindalegra aðferða.  Þátttökuskólar í verkefninu kynnast flóknum umhverfisvandamálum um leið og þeir taka þátt í að leysa þau. Nemendur setja m.a. upp tilraunir á örfoka landi, mæla framvindu gróður- og dýrasamfélaga og kynna niðurstöður fyrir skólunum og nærsamfélaginu. Einnig eru skólar að vinna verkefni í tengslum við endurheimt votlendis og vistheimt á gömlu námusvæði. Lögð er áhersla á valdeflingu nemenda, að þau komi með sínar eigin hugmyndir og læri landlæsi. Nemendur læra, á markvissan hátt og með beinum aðgerðum og mælingum, að vistheimt er loftslagsvæn aðgerð sem þau geta sjálf framkvæmt til að auka líffræðilega fjölbreytni á svæðinu. Verkefnið gefur nemendum tækifæri að feta í fótspor vísindafólks og læra vísindaleg vinnubrögð. Náin samvinna Landverndar, Landgræðslunnar og þátttökuskóla gerir verkefnið einstakt þar sem færustu sérfræðingar vinna beint með nemendum og kennurum í endurheimt vistkerfa. Nemendur og kennarar þeirra sjá um land í nágrenni síns skóla sem eykur vitund og umhyggju fyrir náttúrunni í nærumhverfi skólasamfélagsins. Fræðsla og þekkingarsköpun með aðgerðum valdeflir þátttakendur og eykur getu þeirra til þess að takast á við flókin umhverfisvandamál á eigin spýtur. Áhersla er lögð á að verkefnin séu uppbyggileg, jákvæð og lausnamiðum, sem er gagnlegt þegar unnið er með aukinn loftslagskvíða hjá börnum og ungmennum.

Hvaða virði skapaðist?

Verðmæti Vistheimt með skólum felst einkum í aukinni þekkingu ungmenna á stórum og flóknum alþjóðlegum umhverfismálum, getu til að skilja orsakir, afleiðingar og samspil þeirra, hæfni til að tjá sig um þau í ræðu og riti og til að takast á um álitamál í lýðræðislegum umræðum. Þá er verkefnið að skila aukinni getu kennara til að takast á við flókin umhverfismál. Þá er afar líklegt að sú þekking sem byggist upp í skólasamfélaginu smitist út í nærsamfélag skólanna, en lögð er áhersla á að ýta undir slík margföldunaráhrif verkefnisins, m.a. með kynningum nemenda á niðurstöðum sínum fyrir samfélaginu utan skólans. Í Vistheimt með skólum kristallast því valdefling og aukið frumkvæði nemenda ásamt því að nemendur fá verkfæri í hendurnar til að leysa raunveruleg vandamál og minnka loftlagskvíða sinn. Afurðir verkefnisins eru því bæði menntun til sjálfbærni og aukinn lífbreytileiki í nýlega endurheimtum vistkerfum.

Upplýsingar um verkefnið veita

Rannveig Magnúsdóttir, sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Landvernd. rannveig@landvernd.is

Nánar um verkefnið Vistheimt með skólum: https://landvernd.is/vistheimt-skolar/

 

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400