Verkefnin

Sjálfvirk innheimta og aðgangsstýring í Vatnajökulsþjóðgarði

17.1.2020

Bætt og aukin þjónusta við gesti Vatnajökulsþjóðgarðs með sjálfvirkri innheimtu bílastæðagjalds.

Áskorunin

Vatnajökulsþjóðgarður innheimtir bílastæðagjöld rafrænt í Skaftafelli. Verkefnið fór fyrst af stað í Skaftafelli sem er fjarri þéttbýli og því augljóst að kostnaðarsamt yrði að byggja á lausnum til innheimtu sem kalla á mikinn mannafla á staðnum. Tekjunum er varið til að styrkja helstu innviði þessa fjölsótta ferðamannastaðar Vatnajökulsþjóðgarðs með því til dæmis að viðhalda bílastæðum, leggja göngustíga, efla gæslu og auka öryggi gesta. Mikilvægt er að nýta á sem hagkvæmastan hátt þau tækifæri sem þjóðgarðurinn hefur til öflunar sértekna en þær tegundir innheimtukerfa sem í boði voru á markaði voru ekki taldar henta þar sem þær krefjast mikils mannafla sem er kostnaðarsamt og erfitt í framkvæmd.

Hvað var gert?

Ákveðið var að nýta snjallar lausnir. Sett var upp sjálfvirkt innheimtukerfi sem kallast “my Parking” og er íslensk lausn og nýmæli hérlendis. Kerfið einfaldar og auðveldar alla framkvæmd en það tengist ökutækjaskrá Samgöngustofu, greiðslukortalausnum og Reiknistofu bankanna. Kerfið styðst við gervigreind að hluta og „les“ með myndavélum skráningarnúmer bíla sem í Skaftafell koma og þaðan fara. Það skráir dvalartíma bíls á gjaldskyldum bílastæðum, reiknar út gjaldið og býður upp á nokkra greiðslumöguleika fyrir eiganda/umsjónarmann bíls. Fari ökumaður af svæðinu án þess að borga er krafa stofnuð á eiganda ökutækis og honum tilkynnt um ógreidd þjónustugjöld.

Hvaða virði skapaðist?

Innheimta gjaldsins og lítill kostnaður við rekstur þess hefur aukið verulega getu þjóðgarðsins til þess að bæta og auka þjónustu við gesti á því svæði sem innheimtan fer fram. Kerfið hefur mikið hagræði í för með sér við rekstur þjóðgarðsins þar sem sjálfvirknin lágmarkar vinnu starfsfólks þjóðgarðsins sem nýtist þá betur til annara verkefna innan hans. Sömuleiðis veitir kerfið rauntímaupplýsingar um nýtingu svæða og geymir söguleg gögn til frekari greiningar eins og álag innan dags, samanburð milli vikna og svo framvegis. Þjóðgarðurinn fær því mikið af gagnlegum upplýsingum sem nýtast til framtíðar við m.a. aðgangsstýringu og skipulagningu starfsmannahalds. Þar að auki hjálpar kerfið starfsfólki þjóðgarðsins að verða við aukinni kröfu um öryggisgæslu eins og ef um náttúruhamfarir er að ræða eða annað.  Fyrirtæki í ferðaþjónustu fá einnig upplýsingar um viðveru og innheimtu á rafrænan hátt sem auðveldar rekstur fyrirtækjanna á margan hátt. Að lokum má nefna að kerfið gefur rauntímaupplýsingar um alla umferð.

Verkefnið hefur nú einnig verið tekið upp í Þjóðgarðinum á Þingvöllum að þessari fyrirmynd.

Upplýsingar um verkefnið veita

Vatnajökulsþjóðgarður: Valbjörn Steingrímsson fjármálastjóri netfang valbjorn@vjp.is

Computer Vision: Ársæll Baldursson framkvæmdastjóri netfang arsaell@computervision.is

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400