Verkefnin

Lyfjaávísanir í nýju ljósi

11.8.2020

Með verkefninu Lyfjasýn í nýju ljósi hefur tekist að fækka ávísunum lækna á sýklalyf marktækt með því að auðvelda læknum að bera saman fjölda sinna ávísana við aðra lækna.

 

Áskorunin

Sýklalyfjum er ávísað mun meira á Íslandi en í nágrannalöndunum og mun meira er ávísað af breiðvirkum sýklalyfjum sérstaklega. Ónæmi fyrir sýklalyfjum er alvarlegt vandamál á heimsvísu og lengi hefur verið þekkt sambandi milli mikillar notkunar sýklalyfja og þróunar ónæmis. Í því skyni að stuðla að verndun sýklalyfja er mikilvægt að nota sýklalyf skynsamlega þannig að draga megi úr vægi mikillar notkunar á þróun ónæmis. Verkefnið fólst í að gefa hverjum og einum lækni möguleika á að skoða með einföldum hætti sínar sýklalyfjaávísanir og þróun þeirra í samanburði við lækna á starfsstöð og stofnun. Lausnin er liður í verkefninu:” Skynsamleg ávísun sýklalyfja” sem í daglegu tali kallast Strama verkefnið.

Hvað var gert?

Lausnin var að hanna svo kallaða Gagnasýn inn í forrit Saga sem notað er í heilbrigðisþjónustu. Hinn nýji möguleiki gerir hverjum og einum lækni fært að skoða sínar ávísanir á sýklalyf, þróun þeirra og samanburð við aðra.

Lausnin er hönnuð af Origo í samvinnu við Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Embætti landlæknis. Stramafulltrúar Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu funda með öllum heilsugæslustöðvum og nota einnig gagnasýnina til að spegla ávísanir á sýklalyf á hverri stöð eða stofnun við aðrar stofnanir og landið í heild.

Hvaða virði skapaðist?

Stramaverkefnið hefur þegar skilað umtalsverðum árangri í færri ávísunum á tiltekin breiðvirk sýklalyf og heildarávísunum á sýklalyf hefur fækkað nokkuð frá árinu 2017. Gagnasýnin gefur nú einnig möguleika á að skoða aðra lyfjaflokka með sama hætti og skapar mikilvæg tækifæri til að nota sem verkfæri í gæðaþróun á öðrum sviðum t.a.m. ávísunum á ópíóða, svefnlyf o.s.frv.

Kynning á Stramaverkefninu utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hófst haustið 2019 með fundum með hverri og einni heilsugæslustöð, oftast í fjarfundum. Ráðgert var að ljúka innleiðingu í maí 2020 en vegna Covid-19 faraldurs reyndist ekki unnt að ljúka innleiðingu á landsvísu. Ráðgert er að ljúka innleiðingunni haustið 2020.

Upplýsingar um verkefnið veita

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu: jonsteinar@hg.is

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400