Verkefnin

Borgarafundur í beinni útsendingu

11.8.2020

Upplýsingagjöf til almennings á tímum óvissu og víðtækra en sértækra sóttvarnaráðstafana á norðanverðum Vestfjörðum leiddi til þess að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða stóð fyrir borgarafundum í beinni útsendingu á Facebook til að ná til almennings.

 

Áskorunin

Í apríl raskaðist starf Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og daglegt líf fólks verulega vegna hópsmits COVID-19 á Ísafirði og í Bolungarvík, þ.m.t. hjúkrunarheimilinu Bergi. Hertar samkomutakmarkanir voru í gildi, óvissa um þróun sjúkdómsins og stöðu mála. Samtímis var annars vegar fólk í samfélaginu sem taldi ráðstafanirnar sem gripið var til ónógar, og hins vegar fólk sem taldi þær of harðar. Túlkunaratriði voru mörg og mikilvægt að miðla réttum upplýsingum til almennings.

Hvað var gert?

Ákveðið var að halda þrjá borgarafundi sem haldnir voru 17. apríl fyrir Bolungarvík, 20. apríl fyrir Ísafjarðarbæ og sá þriðji var 29. apríl og var sameiginlegur fyrir norðursvæðið. Bæjaryfirvöld á hvorum stað voru með á fyrri fundunum tveimur, en á öllum voru umdæmislæknir sóttvarna, lögreglustjórinn á Vestfjörðum og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Eftir framsögu var spurningum sem hægt var að senda inn fyrirfram og á meðan á fundi stóð. Fundunum var varpað á Facebook og fengu mjög gott áhorf. Á hverjum tíma voru 6-800 manns að horfa, sem er stórt hlutfall íbúa á svæðinu. Þá voru fjölmiðlar að fylgjast með og skrifuðu þeir fréttir upp úr fundunum. Útsendingarnar fóru fram á skrifstofu forstjóra með frekar einföldum fjarfundabúnaði og engum eiginlegum útlögðum kostnaði.

Hvaða virði skapaðist?

Vitað er að upplýsingagjöf er gríðarlega mikilvæg í samfélagsverkefni sem þessu. Facebook er mjög öflugt tæki til að svara spurningum, minnka ótta, dreifa upplýsingum og róa fólk. Margir kunna á tæknina, hún virkar í símum og tölvum, og það valdeflir fólk að geta spurt og sjá spurningunni sinni svarað í beinni útsendingu. Með þessu er hægt að beina upplýsingum á tiltekna hópa (í þessu tilviki íbúa á ákveðnu svæði). Með verkefninu jókst skilvirkni í upplýsingagjöf og þátttaka almennings varð meiri.

Upplýsingar um verkefnið veita

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: gylfi@hvest.is.

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400