Verkefnin

Bætt eftirfylgni og upplýsingagjöf forsætisráðuneytis

2.11.2021

Forsætisráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að bæta upplýsingagjöf um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Mælaborðin hafa bætt upplýsingagjöf til almennings og kjörinna fulltrúa á stöðu og framgangi aðgerða með aðgengilegum og auðlesnum hætti og hafa þau vakið ánægju og eftirtekt.

Áskorunin

Megináskorunin fólst í að setja fram framfylgd aðgerða með notendavænum mælaborðum sem væru auðlesin, skiljanleg og auðveld í notkun, bæði fyrir notendur sem og umsjónaraðila þeirra. Jafnframt var horft til löggjafarvaldsins og kjörinna fulltrúa á Alþingi sem ættu greiðan aðgang að  upplýsingum um framgang þeirra ályktana sem Alþingi samþykkir.

Skortur hefur verið á yfirsýn, stöðu og eftirfylgni með árangri og framgangi aðgerða sem sett eru fram í aðgerðaáætlunum í t.d. þingsályktunum frá Alþingi á einum stað. Oft er meiri áhersla á stefnumótun, markmiðasetningu og útgáfu skjala sem innihalda sýn á verkefni en minni áhersla á eftirfylgni með samþykktum aðgerðum og mælingum á hvernig slík eftirfylgni er gerð.

Hvað var gert?

Eftir ítarlega hugmyndavinnu og greiningu á því hvernig best væri að setja upplýsingar fram varð niðurstaðan að setja upp auðlesin og aðgengileg mælaborð í kerfi (infogram) þar sem sérfræðingur með lágmarks tölvukunnáttu getur haldið þeim við, sett inn efni og uppfært mælaborðin og auðvelt er að vinna með upplýsingar.

Mælaborðin sýna framgang aðgerða í þingsályktunum á myndrænan og auðskilin hátt á einum stað.

Mælaborð – framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum

Mælaborð – Þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021-2025.

Mælaborðin sýna stöðu aðgerða með ákveðinni litakóðun:

Rautt = Aðgerðin er á byrjunarstigi

Appelsínugult = Aðgerðin er hafin

Gult = Aðgerðin er komin vel á veg

Grænt = Aðgerðinni er lokið

Þá  sýnir mælaborðið hve stórt hlutfall aðgerða er á byrjunarstigi, hafið, komið vel á veg eða lokið.

Mælaborðin eru uppfærð tvisvar á ári með formlegum hætti í samráði við ábyrgðaraðila aðgerða, en þá er kallað eftir stöðu aðgerða og litakóðum breytt í samræmi við nýjustu stöðu aðgerðanna.

Mælaborðin voru þróuð með aðstoð UMBRU (Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins).

 

Hvaða virði skapaðist?

Með tilkomu mælaborðanna hefur verið lögð áhersla á eftirfylgni og stöðu aðgerða í þingsályktunum. Virðið felst í því að ábyrgðaraðilar skilja betur hluverk sitt og ábyrgð á einstaka aðgerðum og að verkefni séu framkvæmd í samræmi við þau tímamörk sem sett eru fram í þingsályktuninni.

Mælaborðin hafa bætt upplýsingagjöf til almennings og kjörinna fulltrúa á stöðu og framgangi aðgerða með aðgengilegum og auðlesnum hætti og hafa þau vakið ánægju og eftirtekt. Önnur ráðuneyti hafa óskað eftir upplýsingum og fræðslu um hvernig staðið var að undirbúningi, uppsetningu og framfylgd.

 

Upplýsingar um verkefnið veita

Sunna Diðriksdóttir, sérfræðingur á skrifstofu jafnréttismála

Netfang: sunna.didriksdottir(hja)for.is

 

 

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400