Verkefnin

Áfram! Ný tækifæri í Hafnarfirði.

3.6.2019

Markmið verkefnisins var að bæta þjónustu við þá sem þiggja fjárhagsaðstoð og skapa þeim raunhæf tækifæri til innkomu eða endurkomu á vinnumarkað.

Áskorunin

Hafnarfjarðarbær stóð frammi fyrir þeirri áskorun að síðustu ár hafði orðið mikil fjölgun einstaklinga sem þiggja fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu og þá einkum ungu fólki. Ákveðið var að bregðast við þessari stöðu með því að veita einstaklingsmiðaða þjónustu við þá sem þiggja fjárhagsaðstoð. Mikilvægt var að skapa einstaklingum raunhæf tækifæri til innkomu eða endurkomu á vinnumarkað eða einstaklingsbundin virkni- eða hæfingarúrræði.

Staðan áður

Hátt hlutfall þeirra sem fékk fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ árið 2013 var ungt fólk á aldrinum 15-34 ára eða tæplega 70% og því var talið mikilvægt að bregðast við þessari stöðu með hagsmuni og velferð einstaklingsins að leiðarljósi. Umfang fjárhagsaðstoðar Hafnarfjarðarbæjar hafði einnig margfaldast á árunum 2007-2013.

Hvað var gert?

Verkefnið hófst formlega í apríl 2014 og var unnið á grunni virkrar velferðarstefnu þar sem áhersla var á að auka virkni og tækifæri einstaklinga til sjálfsbjargar og uppbyggingar. Einnig var byggt á faglegu mati þar sem úrræðin voru sniðin að þörfum og hagsmunum hvers og eins ásamt því að stuðla að betri nýtingu fjármagns sem sveitarfélagið ver til fjárhagsstuðnings og stöðva fyrirséða útgjaldaaukningu til málaflokksins. Fjárhagsstyrkur án samhliða virkni, endurhæfingu eða meðferðarúrræði verði ekki meginregla heldur undantekning og byggi ávallt á faglegu mati starfsmanna. Hafni einstaklingur boði um þátttöku er fjárhagaðstoð skert tímabundið.

Það sem var gert:

Að skapa öllum atvinnuleitendum á fjárhagsaðstoð tækifæri til endurkomu á vinnumarkað með tilboði um tímabundið hlutastarf samhliða virkum stuðningi.

Að tryggja óvinnufærum einstaklingum á fjárhagsaðstoð möguleika á starfsendurhæfingu, vímuefnameðferð eða öðrum úrræðum eftir þörfum hvers og eins ásamt tímabundnu hlutastarfi samhliða slíkri meðferð eða að henni lokinni.

Að aðstoða sérstaklega ungt fólk á fjárhagsaðstoð af bótum í nám, vinnu eða til annarra skapandi verkefna.

Aðgerðaráætlun var gerð þar sem mælanleg markmið voru sett varðandi framkvæmd verkefnisins þ.e. að skapa störf í Hafnarfirði.

Hvaða virði skapaðist?

Virkniúrræði nýtast einstaklingum á fjárhagsaðstoð og bera árangur ef þau eru sniðin að þörfum einstaklinganna. Meginreglan er vinna eða virkni í stað bóta. Samstaða var um verkefnið í bæjarstjórn sveitarfélagsins og strax í byrjun verkefnisins voru sköpuð yfir 100 störf hjá sveitarfélaginu inn í verkefnið.

Upplýsingar um verkefnið veitir

Soffía Ólafsdóttir, soffiao@hafnarfjordur.is

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400