Fréttir & greinar

Nýsköpunardagurinn 2021

24.11.2020

Hvað getum við lært af Covid-19 þegar kemur að því að veita opinbera þjónustu og hvaða tækifæri hefur heimsfaraldurinn skapað til þess að bæta þjónustuna? Þetta er meginumræðuefni á Nýsköpunardegi hins opinbera sem haldinn verður 21. janúar 2021 en yfirskift dagsins er Áhrif Covid-19 á opinbera þjónustu – lærdómar til framtíðar. Við hvetjum þig til að taka daginn frá og fylgjast með á síðu viðburðarins á Facebook.

Heimfaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á allt samfélagið, þar með talið vinnulag opinberra starfsmanna og sýnt fram á mikilvægi þess að opinber þjónusta sé í stakk búin að takast á stórar áskoranir. Meðal jákvæðra breytinga sem orðið hafa á undanförnum mánuðum er að lagt hefur verið kapp á að hraða breytingum til þess að efla stafræna opinbera þjónustu. Samvinna hefur aukist milli ólíkra stofnana og fyrirtækja og stórar breytingar hafa orðið í tengslum við mannauðsmál. Á Nýsköpunardeginum munu opinberir vinnustaðir deila reynslusögum um þessi mál og þá verða nokkur fræðsluerindi haldin um málefnið, meðal annars frá dönsku Nýsköpunarstofnuninni, COI.

Viðburðurinn, sem haldinn verður rafrænn að þessu sinni, er ætlaður öllum þeim sem hafa áhuga á opinberri þjónustu og nýsköpun. Nýsköpunardagur hins opinbera er nú haldinn í annað sinn en að deginum standa fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ísland.is og kjara- og mannauðssýsla ríkisins.

Aðstandendur Nýsköpunardagsins hvetja opinbera vinnustaði til þess að nýta seinni hluta dagsins til að standa að dagskrá þar sem nýsköpun er í aðalhlutverki. Hægt er að halda vinnustofur um innra nýsköpunar- og umbótastarf og greina aukin tækifæri til samvinnu. Hvatt er til þess að spurt verði hvaða breytingar Covid-19 hafi haft á starfsemina sem áhugi er á að viðhalda og hvernig starfsemi og þjónusta þróist með sem bestum hætti næstu árin og hvar helstu tækifæri liggja.

Ef þú og þín stofnun viljið koma á framfæri reynslusögum vegna COVID sendið þá endilega línu í gegnum þennan vef með því að fylgja þessari slóð hér.

 

 

 

 

Höfundur greinar

Íris Huld Christersdóttir Íris Huld Christersdóttir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400