Fréttir & greinar

Nýjar áherslur í innkaupum ríkisins

21.4.2021

Ný innkaupastefna ríkisins, Sjálfbær innkaup sem fjármála- og efnahagsráðuneytið vann, hefur litið dagsins ljós þar sem áhersla er á að innkaup séu vistvæn, hagkvæm og nýskapandi.  Ríkiskaup vinnur nú að því að hjálpa opinberum aðilum að aðlaga innkaup ríkisins að þessum nýju og nauðsynlegu markmiðum. Horft er til þess hvernig hægt er að auka hagkvæmni og því hefur Ríkiskaup ákveðið fara í nokkurs konar rekstrarráðgjöf við opinberar stofnanir til að sjá hvar megi spara og hagræða í rekstri. Á síðustu árum hefur ríkið náð að spara um 1,5 til 3 milljarða á ári með ábyrgum innkaupum, en ætlunin er að gera enn betur. Mikilvægt er í þessu sambandi að horfa til þess virði sem ætlunin er að skapist með hverjum innkaupum fyrir sig,  t.d., hraðari þjónusta, bætt gæði eða annað. Auk þess verða vistvæn innkaup ríkisaðila almenn regla. Til stuðnings við nýja innkaupastefnu ætlar Ríkiskaup að stórauka innkaupafræðslu sína.

Í þeim miklu áskorunum sem fram undan eru bæði efnahagslega og samfélagslega er mjög mikilvægt að nýta sem best þá fjármuni sem ríkið ver í að kaupa vörur, þjónustu og verklegar framkvæmdir. Nokkur dæmi af fjölmörgum um innkaup eru bygging á Húsi íslenskunnar, kaup á hafrannsóknarskipi, keypt þjónusta arkitekta, kaup á lyfjum og nýsmíði hugbúnaðar. Árlega fara yfir 200 milljarðar til innkaupa hjá ríkisaðilum, en í stefnunni er eins og áður segir, lögð áhersla á aukna nýsköpun, meiri þátttöku einkamarkaðar og betri nýtingu á innkaupakrafti ríkisins.

Stöðumat og drög að stefnu voru lögð fram í samráðsgátt og fulltrúar yfir 50 hagsmunaaðila hafa komið að ferlinu. Stöðumat innkaupa var gefið út í samráðsgátt í byrjun árs 2020 með drögum að stefnunni. Með nýrri stefnu um sjálfbær innkaup sem gefin er út núna fylgir sérstök aðgerðaáætlun fyrir árin 2021-2024.

Sjálfbær innkaup – stefna ríkisins 
Aðgerðaáætlun 2021-2024

Höfundur greinar

Hildur Arnardottir Hildur Arnardottir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400