Fréttir & greinar

Ný tækni helsti drifkraftur nýsköpunar

14.9.2021

Ný tækni er einn helsti drifkrafur nýsköpunar hjá opinberum aðilum samkvæmt niðurstöðum úr Nýsköpunarvoginni 2021 sem nú liggja fyrir. Ný tækni ýtir undir nýsköpunarverkefni í yfir helmingi þeirra verkefna sem nefnd eru ásamt því að tækni er talin vera ein af helstu ástæðum þess að nýsköpunarverkefni voru sett af stað. Er þetta í samræmi við auknar áherslur opinberra aðila í stafrænni þjónustu sem hefur fleygt áfram undanfarna mánuði meðal annars í gegnum Ísland.is. 

Nýsköpunarvogin er samnorræn könnun á nýsköpun opinberra aðila og hefur nú verið framkvæmd í annað sinn hér á landi en hún var lögð fyrir forstöðumenn stofnana ríkisins og fulltrúa sveitarfélaga síðastliðið sumar. 73% svarenda segjast hafa innleitt eitt eða fleiri nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum sem er lægra hlutfall en fyrir þremur árum þegar hlutfallið var 78%. Hærra hlutfall aðila ríkisins segjast hins vegar hafa innleitt nýsköpunarverkefni nú en áður og er hlutfallið þar 82% miðað við 80% árið 2018.

Helsta virði sem nýsköpun skilar hjá hinu opinbera er aukin skilvirkni en þar á eftir skilar nýsköpun sér í auknum gæðum, aukinni starfsánægju og aukinni innsýn almennings.

Starfsfólk spilar stórt hlutverk þegar kemur að nýsköpun og er starfsfólk einn helsti drifkraftur nýsköpunar hjá opinberum vinnustöðum og sá þáttur sem ýtir einna mest undir verkefnin. Líkt og í síðustu könnun þá eru einkafyrirtæki helsti samstarfsaðili opinberra aðila í nýsköpunarverkefnum eða í 38% atvika sem er hæsta hlutfall meðal Norðurlandanna. Almenningur kemur að verkefnum í 10% tilvika.

Líkt og í fyrri könnun eru flest verkefni fjármögnuð af fjárhagsáætlun eða í 92% tilvika. 15 % opinberra aðila nálgast sérstaka fjárveitingu úr ráðuneyti og einungis 4% eru að fjármagna verkefni úr opinberum íslenskum styrktarsjóðum.

Allar niðurstöður fyrir ríkisstofnanir má finna HÉR.

Heildar niðurstöður fyrir ríki og sveitarfélög má finna HÉR.

Niðurstöður þvert á Norðurlöndin má finna HÉR.

Höfundur greinar

Íris Huld Christersdóttir Íris Huld Christersdóttir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400