Fréttir & greinar

Keppni í nýsköpun – hvernig virkar það?

6.10.2020

Í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland er lögð áhersla á að stofna til samkeppna í nýsköpun á öllum sviðum, meðal annars innan opinberra vinnustaða. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í samvinnu við aðra opinbera aðila og Nýsköpunarmiðstöð Íslands staðið fyrir tveimur nýsköpunarkeppnum eða hakkaþonum á þessu ári, „Hack the crisis Iceland“ og „Gagnaþon fyrir umhverfið“.

Í dag voru þessi tvö hakkaþon gerð upp á viðburði ráðuneytisins innan Nýsköpunarvikunnar þar sem vel valin verkefni voru kynnt og sérfræðingar í málefninu ræddu um kosti og galla hakkaþona.

Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni, nýrri hátíð í Reykjavík sem fer fram dagana 30. september -7. október. Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti. Nánar á www.nyskopunarvikan.is

Fimm verkefni voru kynnt í dag sem eiga það sameiginlegt að hafa lent í efsta sæti í sínum flokki í hvoru hakkaþoni. Kynninguna frá í dag má sjá í heild sinni frá mínútu 7,50 HÉR.

Kinder – Kinder er app sem notar leikjavæðingu til þess að hvetja notendur til þess að styrkja og ýta undir lítil samfélög með því að bjóða þjónustu á skemmtilegan og gagnsæjan hátt. Verkefnið sem var unnið af systkinunum Gamithra Marga og Johann Marga má sjá HÉR.

Áskorun 2020Áskorun 2020 skorar á Íslendinga að ferðast um landið, og gera úr því smá keppni. Til dæmis með því að keppast um hver hafi séð flesta fossa eða farið í flestar sundlaugar.

Hjólað fyrir umhverfið – Lausnin Hjólað fyrir umhverfið er hvetjandi hjóla snjallforrit unnið upp úr opnum gögnum opinberra stofnana sem gefur notenda upplýsingar um kolefnisspor sem sparast við það að hjóla í stað þess að keyra. Það gefur einnig hvatningarorð á hverjum degi sem tekur mið af veðri næsta dags. Sem dæmi gætu skilaboð fyrir blíðviðrisdag verið eitthvað á þessa leið: “Það er frábært hjólaveður í fyrramálið, njóttu ferðarinnar.” og fyrir blautan og kaldan dag gætu skilaboðin verið: “Við látum veðrið ekki stoppa okkur, mundu eftir regnjakka á morgun. Þetta verður hressandi ferð”. HÉR getur þú skoðað verkefnið.

GreenBytes – GreenBytes verkefnið snýst um að draga úr matarsóun með því að segja veitingastöðum hve mikinn mat þeir ættu að panta. Forritið hjálpar matvælasöluaðilum að draga úr matarsóun og auka hagnað með því að brjóta niður matseðla veitingastaða og spá fyrir um matarneyslu í framtíðinni meðal annars með því að nota gögn frá Veðurstofu Íslands. Lesa má um verkefnið HÉR.

Flokk flokkFlikk Flokk er farsímaforrit sem gerir endurvinnslu áreynslulausa. Það dregur úr þeim tíma sem þarf til að finna upplýsingar um hvernig á að endurvinna vöru með því að nota gögn frá Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun Íslands.

Helstu niðurstöður úr pallborðsumræðum dagsins voru þær að hakkaþon hafi vissulega burði til að auka nýsköpun hér á landi sé rétt að þeim staðið og vel hugsað um hvernig framkvæmd sé útfærð. Þá sé mikilvægt að halda vel utan um sigurvegara í kjölfar hakkaþonanna líkt og reynt var að gera í þeim hakkaþonum sem til umræðu voru. Þetta hafa einnig aðrar þjóðir verið að benda á enda gerast hlutirnir ekki af sjálfu sér þó sigur sé í höfn. Mikilvægt sé einnig að þátttakendur geti unnið náið með þeim sem hafa sérþekkingu á viðfangsefninu til þess að verkefnin skapi raunverulegt virði hverju sinni. Þannig er mikilvægt fyrir opinbera aðila að hafa í huga sem langar að taka þátt í hakkaþonum að hugsa vel að því hvaða áskorun þeir leggja inn í keppnina og reyna eftir fremsta megni að fá þátttakendur til að vinna með starfsfólki og sérfræðingum stofnunarinnar við úrlausn áskoranna. Með því móti eru meiri líkur á að afurðin geti gagnast og skapað virði fyrir almenning í landinu.

Nýsköpunarkeppnir eru að mörgu leiti frábær leið til þess að auka samvinnu almennings, fyrirtækja og opinberra aðila sem er mikilvægt til þess að þjónusta hins opinbera endurspegli þarfir notenda. Þekking almennings á viðfangsefnum hins opinbera getur þannig aukist ásamt innsýn og þátttöku í að bæta opinbera þjónustu sem getur verið með til þess að auka traust á stjórnsýsluna. Það er því engin spurning að sé rétt á spilunum haldið að keppnir í nýsköpun eru leið til þess að auka nýsköpun við veitingu opinberrar þjónustu sem stuðlar samhliða að verðmætasköpun í samfélaginu.

 

Höfundur greinar

Íris Huld Christersdóttir Íris Huld Christersdóttir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400