Fréttir & greinar

Eru faghópar fyrir þig?

18.5.2021

Þekkingarmiðlun og skoðanaskipti eru mikilvægir þættir þegar kemur að umbóta- og nýsköpunarstarfi. Í aðgerðaáætlun um opinbera nýsköpun er eitt af markmiðunum að auka samvinnu meðal starfsmanna hins opinbera með því að stofna til faghópa á mismunandi sviðum. Faghópar geta verið frábær leið til þess að sækja sér nýja þekkingu og fá faglegan innblástur.

Í nýlegri úttekt OECD er margvíslegur ávinningur og tilgangur faghópa talinn upp:

  • Að hvetja aðra til dáða og átta sig á því að það eru fleiri með sömu verkefni og áskoranir
  • Að deila góðum sögum sem geta veitt innblástur
  • Að finna að maður skiptir máli og hjálpar fólki að sjá að það eru góð verkefni í gangi hjá hinu opinbera
  • Að læra nýja hluti og kynnast fólki sem hefur áhuga á nýsköpun
  • Að tengjast öðrum með svipaðar áskoranir og sjá hvað fólk getur gert saman
  • Að búa til örugg rými fyrir fólk til að vera opið og heiðarlegt hvert við annað
  • Að safna saman fólki sem hefur sama áhugann og er tilbúið að deila reynslu til að hlutirnir gerist, jafnvel litlar breytingar
  • Auka fræðslu um nýsköpun
  • Að byggja upp sjálfstraust fólks til að prófa nýja hluti.

Markmið með stofnun faghópa innan stjórnsýslunnar er að bæta gæði og skilvirkni opinberrar þjónustu með því að auka samvinnu og þekkingarmiðlun á milli aðila sem sinna svipuðum störfum á mismunandi stöðum.

Með því að styrkja stjórnsýsluna inn á við í gegnum jafningjafræðslu er mögulegt að auka nýsköpun og umbætur hjá hinu opinbera og þar af leiðandi getuna til þess að taka á móti áskorunum og breytingum.

Með þátttöku í faghópi getur þú auðveldað þér lífið í starfi í gegnum aukið upplýsingaflæði þar sem þú getur fengið að vita hvernig aðrir eru að leysa verkefnin á sama tíma og þátttakan er mikilvægur hlekkur í starfsþróun þinni. Hóparnir eru leið til að virkja faglega umræðu um verkefnin og eru hvetjandi þáttur inn í starfsemina um hvernig megi stöðugt vinna að nýjum markmiðum til árangurs.

Ýmsir faghópar eru nú þegar að störfum og viljum við gjarnan gera þessa faghópa sýnilegri og hvetja til stofnunar fleiri slíkra. Má þar til að mynda nefna faghópa um mannauðsmál, faghópa SKÝ til að mynda um stafræna þjónustu og nýlega stofnaðan faghóp fyrir opinbera aðila sem vinna með gögn.  Ef þú ert í forsvari fyrir faghópi máttu endilega deila því með okkur HÉR. Eins væri gaman að fá hugmyndir að nýjum faghópum HÉR. Hér á síðunni verður svo hægt að nálgast yfirlit yfir mismunandi faghópa.

 

Höfundur greinar

Íris Huld Christersdóttir Íris Huld Christersdóttir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400