Fréttir & greinar

Er þinn vinnustaður að nýta tækifæri gervigreindar?

26.4.2021

Gervigreind hefur mikla möguleika í för með sér til þess að bæta skilvirkni og gæði opinberrar þjónustu og því hvetjum við opinbera vinnustaði sérstaklega til þess að kynna sér nýtt námskeið sem stendur nú til boða. Á vefnum elementsofai.is geta allir, sér að kostnaðarlausu, nálgast námskeið í grunnatriðum gervigreindar. Námskeiðið er tilvalið fyrir þá sem vilja læra inn á möguleika gervigreindar til þess að styrkja sig í starfi. Með því að sækja námskeiðið næst ákveðinn skilningur á tækifærum gervigreindar en einnig á því hvaða þætti ber að hafa í huga við notkun tækninnar. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar opinberir aðilar hyggjast nýta sér þessa tækni í starfsemi sinni.

Um er að ræða 30 klukkustunda netnámskeið í 6 hlutum sem einstaklingar geta tekið þegar þeim hentar, hvort sem er í tölvu eða síma, en það er hannað til að vera aðgengilegt flestum, óháð aldri, starfsreynslu eða öðru. Námskeiðið hefur hlotið fjölda verðlauna (meðal annars frá MIT – Massachusetts Institute of Technology) og er nefnt fyrst í flokki vefáfanga um tölvunarfræði, á undan áföngum þekktra menntastofnana á borð við Stanford, Harvard og MIT.

Námskeiðið er hluti af aðgerðaáætlun fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni, með það að leiðarljósi að leggja rækt við þekkingu, uppbyggingu hennar og flæði um allt samfélagið til að sporna gegn skiptingu í hópa þeirra sem eiga eða eiga ekki, kunna eða kunna ekki, skilja eða skilja ekki.

Þá vekjum við einnig athygli á tillögu að stefnu um gervigreind sem hefur að geyma atriði sem vert er að skoða við notkun tækninnar.

 

Höfundur greinar

Íris Huld Christersdóttir Íris Huld Christersdóttir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400