Fréttir & greinar

Aðgerðir í þágu opinberrar nýsköpunar

14.9.2021

Aukin þekking á nýsköpun, meiri samvinna milli hins opinbera og einkaaðila og bætt nýting gagna eru afurðir aðgerðaáætlunar um nýsköpun hins opinbera sem gefin var út í mars 2019.

Áætlunin samanstóð af 12 verkefnum í þágu nýsköpunar sem nú er lokið en hún byggðist á nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Meðal verkefna var að festa í sessi Nýsköpunarmót, Gagnaþon fyrir umhverfið og nýtt mælaborð um rekstur ríkisins.

Auk verkefna úr aðgerðaáætluninni var haldinn Nýsköpunardagur hins opinbera í janúar 2021 þar sem fjallað var um nýsköpun á tímum heimsfaraldurs, sem falið hefur í sér bæði áskoranir og tækifæri til að fara nýjar leiðir.

Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu var einnig gert hátt undir höfði með sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar þar sem 12 verkefni heilbrigðisstofnana og frumkvöðla og fyrirtækja fengu fjármögnun. Flest verkefnin eiga það sameiginlegt að auka stafræna þjónustu við sjúklinga sem leiðir einnig til tímasparnaðar fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Meðal afurða sem átaksverkefnið skilaði sér er app fyrir inniliggjandi sjúklinga á Landspítala, ný leið í atferlisþjálfun ungmenna á BUGL og fjarvöktun ónæmismeðferðar krabbameina.

Yfirlit verkefna úr aðgerðaáætlun um opinbera nýsköpun.

Hvatt til samstarfshópa þvert á stjórnsýsluna.
Þekkingarmiðlun á milli starfsstétta er nauðsynleg til að efla samstarf ríkisstofnana og hvetja til nýsköpunar. Nokkrar starfsstéttir eru nú þegar með mótaðan vettvang t.d. sviði mannauðsstjóra ríkisins. Á Nýsköpunarvefnum er nú hægt að skrá inn samstarfshópa sem til eru og leggja til nýja og verður áfram hvatt til og stutt við mótun fleiri slíkra hópa með annars í gegnum nýja innkaupastefnu.

Nýsköpun í opinberum innkaupum efld.
Mikilvægt er að kynna hvaða leiðir eru í boði í opinberum innkaupum til að vinna að nýsköpun. Lagaumgjörðin veitir skýra möguleika sem lítil þekking er á bæði hjá opinberum starfsmönnum og einkaaðilum. Unnið hefur verið að eflingu Ríkiskaupa með það að markmiði að bæta þjónustu við stofnanir og auka nýsköpun í samvinnu við markaðinn. Stofnunin hefur aukið fræðsluhlutverk sitt og staðið fyrir ýmiskonar fræðslu meðal annars í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Í nýrri innkaupastefnu er mikil áhersla á nýsköpun og bætta þekkingu á innkaupaferlum.

Nýsköpunarmót fest í sessi.
Nýsköpunarmótið 2021 var haldið í samvinnu við Ríkiskaup í maí 2021 sem hluti af Nýsköpunarvikunni. Er þetta í annað sinn sem slíkt mót er haldið og verður þessi hugmyndafræði þróuð áfram til þess að auka enn frekar samvinnu opinberra aðila við fyrirtækin í landinu.

Fréttabréf um opinbera nýsköpun gefið út.
Á vefnum opinbernyskopun.island.is geta opinberir aðilar deilt nýsköpunarverkefnum sín á milli og þar má finna fréttir og fræðslu um málefnið. Með fréttabréfi eru þessi mál færð nær opinberum starfsmönnum og fræðsla og þekkingarmiðlun aukin. Fyrsta fréttabréfið fór í loftið í apríl 2021. Hægt er að skrá sig fyrir fréttabréfinu á Nýsköpunarvefnum.

Fjármögnunarmöguleikar opinberrar nýsköpunar skoðaðir.
Ein af áskorunum stofnana við innleiðingu nýsköpunarverkefna er fjármögnun þeirra. Eins og sést í niðurstöðum Nýsköpunarvogarinnar að flest verkefni eru fjármögnuð af rekstrarfé stofnana. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu sem og nýsköpunarstyrkir einstaka ráðuneyta eru þó dæmi um nýjar leiðir í þessum efnum sem opinberir aðilar eru hvattir til að kynna sér. Áfram verður unnið að því að fjölga möguleikum opinberra aðila í þessum efnum.

Stefna um stafræna þjónustu gefin út.

Stefna hins opinbera um stafræna opinbera þjónustu hefur verið gefin út og í vinnslu er að birta árangursmælikvarða og aðgerðaáætlun. Sýnin sem kemur fram í stefnunni er að Ísland sé meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu. Stafræn þjónusta er notuð til þess að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni sem leiðir til verðmætasköpunar og myndar grundvöll hagsældar. Stafræn þjónusta er skýr, örugg, einföld og hraðvirk. Upplifun notenda af þjónustunni stenst samanburð við þjónustu eins og hún gerist best. Almenningur og fyrirtæki í landinu komast beint að efninu, hvar og hvenær sem er, sem sparar dýrmætan tíma fólks. Jafnframt minnka áhrif þjónustunnar á náttúruauðlindir.

Nýsköpunarvogin framkvæmd í annað sinn.
Nýsköpunarvogin hefur verið framkvæmd og niðurstöður birtar á Nýsköpunarvefnum. Könnunin er norrænt verkefni sem fer fram í annað sinn hér á landi og sýnir stöðu nýsköpunar meðal opinberra aðila.

Hagnýting og sýnileiki opinberra gagna aukin með Gagnaþoni.
Gagnaþon fyrir umhverfið var haldið haustið 2020 við mikla þátttöku. Ráðuneytið vinnur nú að Norrænu Gagnaþoni í samvinnu við Nordic Innovation.

Bætt aðgengi að opinberum gögnum.
Með innleiðingu á Straumnum (e. X-Road) verður lögð áhersla á að tengja opin gögn í vörslu opinberra aðila með almenningi. Með Straumnum verður deiling gagna auðveldari fyrir stofnanir um leið og tímanleiki gagna batnar. Innleiðing á Straumnum stendur yfir en í tenglum við þetta verkefni hefur verið opnaður nýr vefur yfir vefþjónustur inn á Ísland.is þar sem unnið er að því að allar vefþjónustur ríkisins séu sýnilegar og aðgengilegar.

Mælaborð fyrir stjórnendur birt.
Gífurlegir möguleikar felast í samanburði fyrir ríkisaðila á rekstrar- og mannauðsgögnum á milli stofnana. Slíkt mælaborð býður upp á mikla möguleika til umbóta og nýsköpunar í starfsemi stofnana. Mælaborðið hefur nú verið birt á vefnum https://rikisreikningur.is/. Á mælaborðinu má sjá yfirlit niður á ríkisaðila um atriði sem ná allt frá mannauði og yfir í innkaupamál. Áfram verður unnið með mælaborðið til þess að bæta yfirsýn stjórnenda á starfsemi sína.

Notkun, tækifæri og áskoranir gervigreindar hjá hinu opinbera.
Mikilvægt er að styðja við vegferð opinberra stofnana þegar kemur að notkun gervgreindar að því leyti að til sé aðgengilegt efni um möguleika gervigreindar, hvernig hún nýtist best og hvað þurfi að hafa í huga við notkun tækninnar. Drög að stefnu um gervigreind hefur verið birt þar sem ýmis álitamál og tækifæri gervigreindar eru reifuð. Fjármála- og efnahagsráðuneytið stóð einnig fyrir spurningakönnun sem send var öllum ríkisaðilum þar sem spurt var að hve miklu leyti opinberir aðilar nýta sér gervigreind og hvernig. Þá er nú aðgengilegt gjaldfrjálst námskeið í gervigreind á vefnum https://www.elementsofai.is/

Mótuð verði umgjörð um aðgengi að opinberum gögnum.
Á vef Ísland.is er nú unnið að því að birta yfirliti yfir hvaða gögn opinberar stofnanir búa yfir og hvernig hægt er að nálgast þær. Þar má einnig finna upplýsingar um hvernig skuli miðla gögnum á vefnum en auk þess munu þar fljótlega birtast frekari upplýsingar um hvernig opinberir aðilar skuli standa að miðlun upplýsinga.

Höfundur greinar

Íris Huld Christersdóttir Íris Huld Christersdóttir
Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Ríkiskaup

Tölvupóstur

rikiskaup@rikiskaup.is

Sími

530-1400